Til greina kemur að leggja meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði niður og flytja starfsemina til höfuðborgarinnar. Barnaverndarstofa er nú með málefni heimilisins til skoðunar.

Háholt er eitt þriggja meðferðarheimila úti á landsbyggðinni á vegum Barnaverndarstofu en þar eru vistaðir unglingar á aldrinum 15-18 ára. Á undanförnu ári hafa starfsmenn heimilisins orðið fyrir alvarlegum árásum af hendi unglinganna og brotthlaup verið tíð með tilheyrandi leitarkostnaði. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Sauðárkróki er fólk á nærliggjandi bæjum orðið órólegt vegna hinna tíðu stroka og hrætt um sig og eigur sínar.

Barnaverndarstofa hefur nú málefni Háholts til skoðunar en samningur við núverandi rekstraraðila rennur út í sumar. Stofnunin hefur lagt til við Velferðarráðuneytið að opnuð verði ný stofnun í Reykjavík fyrir elstu og erfiðustu unglingana og myndi hún þá hugsanlega leysa Háholt af hólmi.

Halldór Hauksson, sviðsstjóri meðferðar- og fóstursviðs, segir að þótt margt mæli með því að hafa meðferðarheimili út á landi, þá sé líka margt sem mæli á móti því. Aðallega vegna þeirra hugmynda sem fólk hafi í dag um meðferð, því hún þurfi í auknum mæli að miða út frá félagahópi, fjölskyldu, skóla og atvinnuúrræðum.

Þótt reynt hafi verið að bæta öryggi á Háholti segir Halldór að aldrei verði hægt að koma í veg fyrir að unglingar strjúki af heimilinu enda hafi starfsfólkið ekki valdheimildir til þess að koma í veg fyrir brotthlaup. Þetta sé í rauninni opin eða hálfopin meðferð, sem þýði það að menn geti í rauninni farið með ýmsum ráðum.

Heimild: Rúv.is