Fiskprótín gegn sykursýki

Í starfstöð Matís á Sauðárkróki er nú verið að kanna virkni blóðsykurslækkandi lífefna úr sjávarfangi en markmið rannsóknarinnar er að komast að því hvort hægt sé að nota fiskprótín í baráttunni gegn sykursýki.

„Við höfum verið að skoða hvort það sé hægt að einangra prótín úr fiski og nota það til þess að lækka blóðsykur því að of hár blóðsykur er stækkandi vandamál í heiminum,“ segir Hólmfríður Sigurðardóttir, starfsmaður Matís. Hún segir að rannsóknir hafi sýnt að hjá þjóðum þar sem fiskneysla er mikil sé tíðni sykursýki 2 lægri en annars staðar. Starfsmenn Matís vilja því meina að hægt sé að nota fiskprótín til að hamla of háum blóðsykri – og um leið bæta nýtingu og verðmæti sjávarfangs.

Talið er að árið 2025 verði 300 milljónir manna með sykursýki. „Þannig að það yrði mjög jákvætt ef við gætum notað þurrkað fiskprótin og hvað þá ef það væri hægt að nota afskurð úr fiskvinnslunum og einangra prótín og þurrka það og selja sem fæðubótarefni með andsykursýkisvirkni,“ segir Hólmfríður, Slíkt yrði ekki aðeins bylting fyrir þá sem þjást af sykursýki, heldur einnig fyrir íslenskan fiskiðnað.

Heimild: Rúv.is