Viðhald á þjóðvegum landsins er í algeru lágmarki vegna niðurskurðar undanfarin ár. Ástandið er verst á malarvegum og óttast menn að sá hluti vegakerfisins sé að grotna niður.
Þeir sem aka reglulega um malarvegi þekkja vel hve mikilvægt það er að bera reglulega ofan í þá og hefla. En malarvegir hafa orðið illa úti vegna niðurskurðar á peningum til viðhalds undanfarin ár. Og það er ekki útlit fyrir aukið fé á þessu ári.
Á veginum um Bárðardal, svo dæmis séu tekin, stendur stórgrýti upp úr veginum og erfitt er að ímynda sér að þetta sé þjóðvegur í byggð. En svona er þetta víða, misslæmt auðvitað, en mikið vantar upp á að þetta sé í lagi.
En þegar fjármagn skortir þarf að forgangsraða og þá er áherslan lögð á að viðhalda dýrasta hluta vegakerfisins, vegum með bundnu slitlagi.