Vegna umræðna síðustu daga vill lögreglan á Norðurlandi vestra koma eftirfarandi á framfæri.

Seint á laugardagskvöld  þann 11. apríl fékk lögreglan á Norðurlandi vestra, ábendingu um torkennileg spor í nágrenni sveitabæjar norðarlega á Skaga. Strax kviknuðu grunsemdir um, að um hugsanleg ísbjarnarspor gæti verið að ræða. Lögreglan fór á vettvang á sunnudagsmorgun og voru ummerkin mjög ógreinileg og erfitt að meta eftir hvað umrædd för væru. Ákveðið var að grennslast fyrir og leitaði lögreglan allan sunnudaginn 12.apríl síðastliðinn, umhverfis sporin og næsta nágrenni sem og á Skagaheiði án þess að verða vör við nokkur önnur spor eða nokkur önnur þau ummerki sem gætu stutt grunsemdir um að hvítabjörn væri á sveimi. Ljóst er að sporin eru nokkurra daga gömul og mögulega frá því á þriðjudeginum 7. apríl.

Því var sú ákvörðun tekin að ekki væri grundvöllur til frekari aðgerða að hálfu lögreglu.

Ef einhverjir búa yfir frekari upplýsingum varðandi þetta mál er þeim bent á að hafa samband við lögregluna í síma 112.