Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Augnablik úr Kópavogi mættust á Ólafsfjarðarvelli í dag í 12. umferð 3. deildar karla í knattspyrnu. Lið Augnabliks hefur ekki gengið vel í deildinni í sumar, og hefur aðeins fengið 7 stig í fyrstu 11 leikjunum, og aðeins unnið einn leik. KF hefur byrjað mótið af krafti og hefur verið í efri hluta deildarinnar frá upphafi móts og náð nokkrum stöðugleika í sínum leik. KF vann fyrri leik liðana í sumar á heimavelli Augnabliks örugglega 1-3. Þjálfari KF gerði fjórar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik gegn Einherja sem endaði með 1-1 jafntefli. Inn í liðið voru komnir Aksentije Milisic, Halldór Logi Hilmarsson, Stefán Bjarki og Tómas Veigar.

KF strákarnir byrjuðu leikinn vel og voru staðráðnir í að sækja sigur á sínum sterka heimavelli. KF liðið var talsvert sterkara liðið á vellinum í dag og áttu eftir að fá nokkur færi upp við mark gestanna. Ljubomir Delic var í sérstöku stuði í dag hjá KF og nýtti sín tækifæri vel. Á 35. mínútu skoraði hann fyrsta mark leiksins eftir baráttu inn í teig, en hann fékk góða sendingu frá samherja og út úr teignum og skoraði hann með föstu skoti og kom KF í 1-0.

Aðeins sex mínútum síðar var Ljubomir Delic aftur á ferðinni þegar hann fékk góða fyrirgjöf inn í teig þar sem hann skoraði með góðum skalla og kom KF í 2-0. Þannig var staðan í leikhlé.

KF fékk einnig færi í síðari hálfleik en fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir góðar tilraunir, en Jakob Auðun fékk kjörið tækifæri undir lok leiksins til að skora en tókst því miður ekki. Frábær og öruggur sigur í dag sem hefði hæglega getað verið stærri. KF lyfti sér í 2. sæti deildarinnar með þessum sigri.

Kórdrengir eru nú með 3 stiga forskot á KF og og KV og svo fylgja Vængir Júpiters fast á eftir. KF leikur næst við Álftanes á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 20. júlí kl. 16:00.