Aðsend grein frá Jóhönnu S. Ingólfsdóttur.

Undirrituð skellti sér á frumsýningu á Sauðárkrók síðastliðið föstudagskvöld til að sjá Litlu hryllingsbúðina í leikstjórn Valgeirs Skagfjörð.
Þrátt fyrir að veikindi hafi gert það að verkum að frumsýning hafi verið búin að frestast um tæpar tvær vikur létu leikarar ekki á neinu bera.
Ég fór með því hugarfari að eiga góða kvöldstund í Bifröst og var sko ekki svikin. Ég verð að viðurkenna að Litla hryllingsbúðin hefur ekki verið hátt á vinsældarlista mínum yfir leikverk en hæfileikabúntin á sviðinu voru fljót að láta mig gleyma því.

Ingi Sigþór Gunnarsson sem leikur Baldur Snæ er sannarlega sniðinn í hlutverkið, ekki feilpúst né hnökur og trúði ég algjörlega að hann væri morðóði lúðinn sem hann er. Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir sem leikur Auði stendur sig með stakri prýði og fékk ég oftar en einusinni gæsahúð þegar hún brast í söng. Verð ég þá að nefna samsöng þeirra tveggja sem var algjörlega óaðfinnanlegur. Eysteinn Ívar Guðbrandsson sem leikur tannlækninn sem og aðra karaktera í sýningunni, fer algjörlega á kostum sem hinn óprúttni, siðblindi, tannlæknir. Ég sá einmitt hinn unga Eystein sem Benedikt búálf hjá þeim á Sauðárkróki í haust og varð mér á orði þá að hann væri sko enginn eftirbátur  Björgvins Franz og sannar hann það aftur núna. Hinir þrír karakterarnir sem hann túlkar svo í sýningunni fengu líka allir sín blæbrigði.

Það væri gaman að þylja upp alla í svona umsögn en ég ætla að stikla bara aðeins á öðrum.
Guðbrandur J. Guðbrandsson sem leikur Markús lætur ekki sitt eftir liggja sem aldursforseti sýningarinnar.
Söng stúlkurnar fjórar, Kristey Rut, Herdís María, Hildur Rós og Mara Rere sem bökkuðu upp allan söng og lyftu upp á milli atriða með leik sínum sem unglingsstúlkur í skítþró voru augna og eyrna konfekt.

Róninn, sóparinn og Ástmar, þeir Marteinn Breki, Hlífar og Haraldur Már,  skiluðu sínu með sóma og verð ég að nefna dúbbleringuna hjá “rónanum” yfir í “fréttakonuna” sem er eitt af því skemmtilegra sem ég hef séð og lét mig hlæja dátt.
Ekki má gleyma í þessari upptalningu plöntunni sjálfri, en þeir Helgi Hrannar Ingólfsson sem stjórnaði hreyfingum plöntunnar og Alex Bjartur Konráðsson sem er rödd plöntunnar, stóðu sig með stakri prýði.

Í heildina var þessi uppsetning af Litlu hryllingsbúðinni til mikils sóma hjá Leikfélagi Sauðárkróks og mæli ég eindregið með þessari skemmtun.

Til hamingju öll.

Jóhanna S. Ingólfsdóttir