Berjadagar í Ólafsfirði halda áfram í dag og eru þrír viðburðir í dag og einn í kvöld. Samverustund verður í Ólafsfjarðarkirkju kl. 10:30 þar sem sungið verður og dansað. Göngutúr verður frá Kleifum inn í Árdal kl. 12:00 og Sögustund á Dvalarheimilinu kl. 15:30. Í kvöld kl. 20:00 verður ítalskt og rússneskt óperukvöld í Tjarnarborg.
Laugardagur 3. ágúst kl. 10:30-11:30 – Ólafsfjarðarkirkja
Krákan situr á steini: Komdu að syngja og dansa við norræn þjóðlög!
Tónlistarsamverustund með Diljá Sigursveinsdóttur fyrir börn, unglinga, foreldra, afar og ömmur.
Laugardagur 3. ágúst kl. 12:00
Göngutúr frá Kleifum inn í Árdal
María Bjarney Leifsdóttir leiðir gesti inn í leyndardóma hinnar töfrandi flóru Ólafsfjarðar.
Laugardagur 3. ágúst kl. 15:30 – Dvalarheimilið Hornbrekka
Söngstund í Hornbrekku
Venju samkvæmt flytja listamenn úrval af dagskrá Berjadaga. Sópransöngkonan Hanna Þóra Guðbrandsdóttir heimsækir Hornbrekku að þessu sinni ásamt Sigursveini Magnússyni píanóleikara.
Laugardagur 3. ágúst kl. 20:00 – Menningarhúsið Tjarnarborg
Ítalskt og rússneskt óperukvöld – Íslenskt einsöngvaralið um Verslunarmannahelgina!
Nú er komið að uppfærslu á óperu í Menningarhúsinu Tjarnarborg! Einvalalið íslenskra söngvara flytur fyrsta þátt La Traviata eftir Giuseppe Verdi. Óperan verður flutt í sviðsuppfærslu undir styrkri stjórn hollenska píanóleikarans David Bollen sem situr við flygilinn. Með aðalhlutverk fara Sigrún Pálmadóttir, Elmar Gilbertsson, Jón Þorsteinsson, Ágúst Ólafsson, Hugi Jónsson og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir og með þeim kemur fram glæsilegur einsöngvarakór. Óperuflutningurinn tekur um 25 mínútur og seinni hluti kvöldsins helgast af rússneskum og ítölskum galsa. Þegar galsinn færist í aukana getur ýmislegt óvænt gerst og einsöngvarar á borð við hina rússneskættuðu Nathalíu Druzin Halldórsdóttur stíga á svið.
Einsöngvaralið og óperukór Berjadaga skipa Ágúst Ólafsson, Björg Jóhannesdóttir, Edda Björk Jónsdóttir, Elfa Dröfn Stefánsdóttir, Elmar Gilbertsson, Guðrún Ösp Sævarsdóttir, Halla Ólöf Jónsdóttir, Hanna Þóra Guðbrandsdóttir, Hugi Jónsson, Ingrid Nugteren, Jana Salóme Ingibjargardóttir, Jón Þorsteinsson, Lilja Gísladóttir, Nathalia Druzin Halldórsdóttir, Ólafur Rúnarsson, Sigrún Pálmadóttir, Tómas Haarde, Þóra Björnsdóttir og Örvar Már Kristinsson.
Stakur aðgöngumiði: 4.000 kr. / Hátíðarpassi: 8.500 kr.
Frítt fyrir börn og unglinga 18 ára og yngri
Miðasala á midi.is og við innganginn!