Það ríkir tregablandin gleði í Dalvíkurbyggð eftir að ákveðið var að selja Landsbankanum rekstur Sparisjóðs Svarfdæla. Það er léttir fyrir samfélagið að þar hafi tekist að tryggja áframhaldandi rekstur fjármálastofnunar en um leið eftirsjá í sparisjóðnum.

Á fundi á Dalvík í gærkvöldi samþykktu 99 prósent stofnfjárhafa í Sparisjóði Svarfdæla að selja Landsbankanum rekstur sjóðsins. Um leið var samþykkt að leggja Sparisjóð Svarfdæla niður.

Landsbankinn yfirtekur skuldbindingar vegna lána í sparisjóðnum sem nema 3,2 milljörðum króna og greiðir 165 miljónir að auki. Þá yfirtekur bankinn allar rekstrarlegar skuldbindingar sjóðsins. Mikil óvissa hefur ríkt um rekstur sjóðsins undanfarin misseri og því ákveðinn léttir fyrir samfélagið henni skuli nú hafa verið eytt. Um leið sjá heimamenn eftir sparisjóðnum.

Kristján Hjartarson, formaður bæjjarráðs Dalvíkurbyggðar segir það auðvitað heilmikið áfall  að saga þessarar gömlu traustu stofnunar, Sparisjóðs Svarfdæla, skuli nú öll. Tilfinningar séu mjög blendnar tilfinningar. Á hinn bóginn sé það líka fagnaðarefni að við þessa yfirtöku Landsbankans á Sparisjóðnum sé vonandi tryggð til frambúðar starfsemi peningastofnunar á Dalvík.

Heimild: Rúv