Mikil óánægja er meðal landeigenda í Skagafirði með að leggja eigi tvö hundruð og tuttugu kílóvolta loftlínu frá Blöndustöð að Akureyri. Landeigendur munu ekki leyfa að línan verði lögð yfir þeirra lönd, segir fulltrúi þeirra.

Landsnet hyggst leggja 200 kílóvolta loftlínu frá Blöndustöð til Akureyrar, svokallaða Blöndulínu, sem yrði samtals 107 kílómetra löng. Línan á meðal annars að liggja um svokallaða Efribyggðarleið í Skagafirði, en samkvæmt frummatsskýrslu er gert ráð fyrir talsvert neikvæðum áhrifum á nokkrum bæjum þar, frá Kolgröf að Brúnastöðum, vegna nálægðar við línuna.

Helga Rós Indriðadóttir, fulltrúi landeigenda, segir kröfu þeirra þá að línan verði lögð í jörð.

„Hins vegar er það ljóst að 220 kílóvolta lína er ansi hreint ríflegt til að sinna raforkuþörf almennings. Hér er um að ræða línu sem mun þjóna hagsmunum stóriðju.“

Landsnet segir hins vegar að tilgangurinn sé að styrkja flutningskerfið. Núverandi byggðalína fullnægi ekki þeim kröfum sem séu gerðar. Helga Rós segir að athugasemdir verði sendar við þessar áætlanir.

„Landeigendur hér munu hafna þessu. Þeir munu ekki leyfa það að loftlína verði lögð í gegnum þeirra lönd.“

Heimild: Rúv.is