Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti KA-B í Benecta-deildinni í Íþróttahúsinu á Siglufirði í dag. BF lenti í vandræðum í síðasta leik og tapaði 1-3, en voru mun ákveðnari í þessum leik frá upphafi.
BF náði strax góðri forystu í fyrstu hrinunni og komst í 6-2 en KA stelpur komu til baka og jöfnuðu 7-7 með góðum uppgjöfum. BF hrökk aftur í gang og komst í 14-9 og tóku þá gestirnir leikhlé. BF komst í 19-11 og KA stelpurnar gerðu nokkrar skiptingar en það hafði ekki mikil áhrif. BF kláraði hrinuna örugglega 25-14 og skoruðu 6 stig á móti 1 í lokin.
BF byrjaði svo aðra hrinu með látum og komust í 4-0 með góðu spili. KA stelpurnar komust hægt og rólega inn í leikinn og jöfnuðu leikinn 8-8. BF komst í 12-10 og tóku svo leikhlé. Stelpurnar komu mjög ákveðnar á völllinn eftir pásuna og skoruðu 7 stig í röð og tóku nú gestirnir leikhlé. BF stelpurnar gáfu ekkert eftir og hleyptu KA stelpunum ekkert inn í leikinn og unnu örugglega 25-12 og voru komnar í 2-0.
Þriðja hrinan var aðeins kaflaskipt en BF byrjuðu vel og komust í 6-1 og tók þjálfari KA leikhlé til að koma skilaboðum til liðsins. Spilið hjá BF gekk áfram vel og komust þær í 12-5 og 20-6 og töldu nú margir formsatriði að klára leikinn. BF gerði hérna tvöfalda skiptingu og leyfðu fleiri stelpum að taka þátt. Í stöðunni 21-7 kom mjög góður kafli hjá KA þar sem þær gerðu 5 stig í röð og minnkuðu muninn í 21-12. BF gerði aftur tvær skiptingar og komust í 23-13 og 24-14, en mjög erfiðlega gekk að fá lokastigið í hús. KA stelpur skoruðu nú sex stig í röð og minnkuðu munin í 24-18. BF stelpur kláruðu svo hrinuna 25-18 og leikinn 3-0.
Frábær sigur í kvöld hjá stelpunum, en mótstaðan var ekki mikil. Spilið var að ganga vel og færri mistök áttu sér stað en í fyrsta leik mótsins.