Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við lið Aftureldingar B í íþróttahúsinu Varmá í Mosfellsbæ um sl. helgi. Liðin leika í 1. deild kvenna sem nefnist Benecta-deildin.

Fyrsta hrinan var jöfn framan af og skiptust liðin á að ná forystu án þess þó að stinga af. Í stöðunni 9-11 tóku heimakonur leikhlé, en þá hafði BF skorað 5 stig í röð og voru komnar í stuð. Þetta leikhlé hleypti nýju blóði og krafti í lið Aftureldingar því þær skoruðu næstu 8 stig og breyttu stöðunni í 17-11 en BF tók þó leikhlé í millitíðinni, en það hafði ekki áhrif á gang mála.  BF náði ekki að ógna þeim nóg og voru heimakonur sterkari og kláruðu hrinuna 25-16.

Hrina tvö fór líka jafnt af stað en heimakonur komust þó í 8-4, en þá tók BF leikhlé og komu til baka í stöðunni 10-8. Kom þá mjög góður kafli Aftureldingar og skoruðu þær 7 stig í röð en BF tók þó leikhlé í þeirri atrennu til að reyna brjóta upp leikinn. Staðan var nú orðin 17-8. BF náði aðeins að klóra í bakkan og minnkaði muninn í 19-15 og tók þá Afturelding leikhlé. Heimakonur voru enn og aftur sterkari í lok hrinunnar og kláruðu 25-20 og voru komnar í 2-0 !

Í þriðju hrinu var jafnt framan af en BF konur voru þó sterkari og leiddu í stöðunni 2-5 og 6-10. Afturelding hélt í við BF en í stöðunni 12-13 fór BF smátt saman að auka forystuna og komust í 14-18 og 15-19. Þá kom góður kafli hjá heimakonum sem minnkuðu munin 18-19 en þá tók BF leikhlé. Nú voru BF konur sterkari á lokasprettinum og unnu hrinuna 20-25 og staðan orðin 2-1.

Fjórða hrina var mjög spennandi og gat sigur farið á báða vegu. Jafnræði var með liðunum í upphafi eins og í hinum hrinunum, en í stöðunni 9-6 tók BF leikhlé en þá hafði Afturelding átt góðan leikkafla og skoraði 3 stig í röð. Heimakonur héldu áfram góðum kafla eftir leikhlé og komust í 14-9 og tók nú BF aftur leikhlé. Afturelding komst í 16-12, en þá skoraði BF dýrmæt 4 stig í röð og jafnaði í 16-16 og nú tóku heimakonur leikhlé. Áfram var jafnt í stöðunni 19-19 og nú voru BF konur sterkari og komust í 19-23 með fjórum stigum í röð. BF vantaði aðeins eitt stig í stöðunni 21-24, en heimakonur voru sterkar og skoruðu fimm stig í röð og unnu hrinuna 26-24 og leikinn 3-1.