Sjóvá Kvenna­hlaup ÍSÍ fer fram í dag á Siglufirði. Umf Glói mun halda Kvennahlaup ÍSÍ sextánda árið í röð og verður þetta 30. Kvennahlaupið og verður því meira um dýrðir en nokkur sinni fyrr. Líkt og undanfarin ár verður komið saman á Rauðkutorgi og hlaupið af stað kl. 11:00.

Konur í Fjallabyggð á öllum aldri eru hvattar til að fjölmenna í hlaupið þann 15. júní og fagna um leið 30 ára afmæli Kvennahlaupsins.

Pistill frá menntamálaráðherra vegna kvennahlaupsins.

Markmið Kvennahlaupsins er að hvetja konur á öllum aldri til aukinnar heilsueflingar og til frekari þátt­töku í starfi íþrótta­hreyf­ing­ar­innar á Íslandi. Það hefur sannarlega mælst vel fyrir og því til stuðnings segir það sitt að Kvennahlaupið hefur lengi verið stærsti einstaki íþróttaviðburðurinn á Íslandi. Þátttaka í hlaupinu hefur aukist jafnt og þétt og ár hvert hlaupa þúsundir kvenna um allt land og njóta þess að hreyfa sig saman. Dætur, mæður, frænkur, systur og vinkonur taka þátt og þar eru börn, ungmenni og karlar einnig velkomin.

Kvennahlaupið sameinar tvo mikilvæga þætti í lífi okkar allra – samveru og hreyfingu. Þar er hvatt til samstöðu kvenna og að hver njóti þess að hreyfa sig á sínum for­sendum og eigi ánægju­lega sam­veru­stund með fjöl­skyldu og vinum. Ljóst er að konur eru meira áberandi á vettvangi íþróttanna nú en fyrir 30 árum, hróður ís­lenskra íþrótta­kvenna eykst og þær hafa náð frá­bærum ár­angri á heimsvísu, og margar konur eru nú í for­svari fyrir íþrótta­hreyf­ing­una hér­lendis. Áframhaldandi hvatning og vitundarvakning um heilsueflingu er okkur öllum  mikilvæg. Við ættum að nýta öll slík tækifæri, ekki síst þegar þau stuðla að slíkum sameiningarkrafti og henta þátttakendum á öllum aldri.

Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem komið hafa að Kvennahlaupunum þessa þrjá áratugi og tekið þátt í skipulagningu þeirra víða um land og erlendis. Fjöldamargir sjálfboðaliðar hafa lagt verkefninu lið og tekið þátt í að skapa skemmtilegu stemmningu fyrir þátttakendur. Án þeirra hefði hlaupið ekki blómstrað eins og raun ber vitni. Ég óska þátttakendum og aðstandendum hjartanlega til hamingju með þessi merku tímamót og hlakka til að taka þátt í Kvennahlaupum framtíðarinnar.

Lilja Alfreðsdóttir
mennta- og menningarmálaráðherra

Stækka mynd