KSÍ hefur sektað Knattspyrnufélag Fjallabyggðar um 10.000 kr. vegna 10 refsistiga sem liðið fékk vegna tveggja brottvísana í síðasta leik. Þá hefur Halldór Ingvar Guðmundsson markmaður KF og Jordan Damachoua varnar- og miðjumaður KF verið dæmdir í eins leiks bann en þeir fengu báðir rautt spjald á móti Vængjum Júpiters í síðustu umferð.

Báðir leikmennirnir eru lykilmenn hjá KF og eru alltaf í byrjunarliðinu ef þeir eru heilir.

KF leikur við Reyni Sandgerði á Ólafsfjarðarvelli næstkomandi laugardag kl. 14:00. Með sigri getur KF tryggt sér sæti í 2. deild að ári en jafntefli gæti líka dugað ef KV tapar stigum í sínum leik.

Sindri Leó Svavarsson er varamarkmaður KF og mun hann standa vaktina í leiknum gegn Reyni, en hann var að glíma við smávægileg meiðsli í síðasta leik og var því ekki á leikskýrslu. Hann hefur komið við sögu í þremur leikjum í deild og bikar í vor og sumar. Hann kom meðal annars inná og lék síðustu mínútur þegar KF heimsótti Reyni í Sandgerði í júlí, en KF vann stórsigur 1-5.