Þann 31. maí hófst smíði miðaldavefstóls (vefstaðar) sem Byggðasafn Skagfirðinga vinnur að í samstarfi við Safnamiðstöð Hörðalandsfylkis í Noregi og Fornverkaskólann. Verkið er unnið fyrir styrk frá Menningarráði Norðurlands vestra og Hólanefnd, sem gefur mestallt efni í stólinn. Trésmiðjan Ýr hýsir verkefnið á meðan á smíðunum stendur. Stóllinn verður settur upp í Auðunarstofu á Hólum, enda er samhljómur í byggingaraðferðum við smíði hússins og vefstólsins. Bæði standa þau fyrir norskan menningararf og tengsl við Noreg á miðöldum.

Byggðasafn Skagfirðinga hefur verið og verður í margskonar samstarfi við Hörðlendinga um varðveislu minjaarfs og -erfða, hvort sem það er að kanna og kenna hverfandi byggingahandverk eða önnur gömul handbrögð. Stefnt er að því að halda vefnaðarnáskeið í sumar þegar vefstólinn verður tilbúinn.