Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Knattspyrnufélag Vesturbæjar mættust á Ólafsfjarðarvelli í dag í 17. umferð í 3. deild karla. Sex stig skyldu liðin að, en KF var í 2. sæti fyrir leikinn og KV í 3. sætinu. KV þurfti nauðsynlega sigur í þessum leik til að minnka muninn í 3 stig og eiga betri möguleika á að komast upp í 2. deild að ári. KF gat með sigri nálgast Kórdrengi sem höfðu fjögra stiga forskot fyrir leikinn. KV vann fyrri leik liðanna í sumar 2-1 og liðin mættust einnig í fyrra og unnu þá bæði liðin sína heimaleiki. Búist var við hörkuleik enda svokallaður sex stiga leikur.

Þjálfari KF gerði tvær breytingar frá síðasta leik, en Alexander Már var kominn aftur í liðið eftir smávægileg meiðsli og Vitor var kominn inn í liðið eftir að hafa byrjað á  varamannabekknum í síðasta leik.

KF byrjaði leikinn af krafti og skoruðu strax á 3. mínútu, og það var að sjálfsögðu Alexander Már sem markið skoraði en hann hefur reynst happafengur fyrir KF á þessu tímabili.  KF þurfti að gera skiptingu strax á 14. mínútu þegar Ljubomir Delic meiddist, og inná kom Hákon Leó Hilmarsson. Á 34. mínútu skoraði KF aftur og var núna Andri Snær sem var þar að verki og kom KF í 2-0. KF leiddi því 2-0 þegar dómarinn flautaði til hálfleiks.

KV reyndu hvað þeir gátu að komast betur inn í leikinn og gerði þjálfari þeirra þrefalda skiptingu á 60. mínútu til að hressa upp á sóknarleik liðsins. En það var KF sem skoraði næsta mark og aftur var það Andri Snær sem átti frábæran leik í dag eins og margir aðrir leikmenn KF. Staðan 3-0 og aðeins 20. mínútur eftir. Strax eftir markið gerði þjálfari KF skiptingu þegar Valur Reykjalín fór útaf fyrir Sævar Þór og skömmu síðar kom Tómas Veigar inná fyrir Aksentije Milisic.

Gestirnir í KV náðu aðeins að klóra í bakkann og minnkuðu muninn í 3-1 á 78. mínútu og settu smá spennu í leikinn. KF gerði tvær skiptingar til viðbótar þegar Óliver og Jakob Auðun komu inná fyrir Stefán Bjarka og Alexander Má. Fleiri urðu mörkin ekki og KF vann gríðarlega mikilvægan sigur á KV og er núna komið með 9 stiga forskot og aðeins stigi á eftir Kórdrengjum.