KF eru ósigraðir eftir fjóra leiki í Kjarnafæðismótinu en liðið spilar í B-deildinni. Í gær lék KF við Kormák/Hvöt sem kom inn í mótið fyrir Tindastól sem dró sig úr keppni.

KF hefur haldið markinu hreinu í fyrstu leikjunum og varð engin breyting á því í þessari viðureign. Liðið var áfram blandað strákum úr heimabyggð og lánsmönnum frá öðrum liðum.

Grétar Áki fyrirliði braut ísinn og skoraði fyrsta mark leiksins á 29. mínútu. KF leiddi 1-0 í hálfleik og gerði eina skiptingu þegar Jakob Auðun kom inná fyrir Kristófer Mána.

KF komst í 2-0 á 58. mínútu þegar Ingi Freyr skoraði, en hann er á láni hjá félaginu en er leikmaður Þórs. KF gerði aðra skiptingu á 63. mínútu þegar Óliver kom inná fyrir Aron Elí, en hann er ungur leikmaður KA á láni.

Grétar Áki skoraði sitt annað mark og þriðja mark KF á 69. mínútu. Þorsteinn Már Þorvaldsson bætti við fjórða markinu á 75. mínútu og gulltryggði hann sigurinn. Nokkrum mínútum síðar var leikurinn stöðvaður þegar Aksentije Milisic leikmaður KF meiddist illa á hné og var fluttur á sjúkrahús. Leiknum var ekki haldið áfram og lauk með öruggum sigri KF, 4-0.

KF hefur sigrað tvo leiki og gert tvö jafntefli á mótinu.