Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Hött/Huginn í dag á Fljótsdalshéraði, þar sem leikið var á Vilhjálmsvelli í hjarta Egilsstaða. Alskýjað var á Egilsstöðum og hitinn tæplega 10 stig þegar leikurinn byrjaði og einnig voru um 5 m/s vindur á meðan leiknum stóð. KF vann fyrri leik liðanna í sumar nokkuð örugglega, 3-0. Höttur/Huginn var 5 stigum frá fallsæti fyrir þennan leik og KF var í 2. sæti eftir gott gengi í sumar.
KF byrjaði leikinn ágætlega, en þurfti að gera skiptingu strax á 10. mínútu þegar Jakob Auðun þurfti að fara af velli en inná kom Aksentije Milisic, og átti hann eftir að láta að sér kveða í leiknum. Aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Alexander Már fyrir KF og kom þeim í 0-1. Tuttugu mínútum síðar skoraði Aksentije Milisic og kom KF í þægilega stöðu, 2-0. Heimamenn voru þó fljótir að minnka muninn og skoruðu á 40. mínútu og var staðan því 1-2 í hálfleik.
Heimamenn komu miklu grimmari til leiks í síðari hálfleik og gerði þjálfari þeirra tvöfalda skiptingu þegar tæplega 30 mínútur voru eftir að leiknum og kom markahæsti maður þeirra inná, Ivan Bubalo, en hann er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar.
Það var hins vegar KF sem skoraði næsta mark og var þar að verki Alexander Már og kom hann KF í enn betri stöðu, 1-3 og hans annað mark í leiknum. Alexander hefur núna skorað 21 mark í deildinni og er langmarkahæstur í 3. deild karla.
Það var eins og heimamenn vöknuðu við þetta og eins komu varamennirnir sterkir inn, en Huginn/Höttur skoraði tvö mörk með stuttu millibili og jöfnuðu þeir leikinn. Norski leikmaður þeirra Knut Erik Myklebust skoraði á 65. mínútu og varamaðurinn Ivan Bubalo á 70. mínútu og skyndilega var staðan orðin jöfn, 3-3 þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum.
KF gerði á þessum kafla tvær skiptingar með stuttu millibili, en inná kom Sævar Þór fyrir Óliver og Stefán Bjarki fyrir Val Reykjalín. KF kom hins vegar til baka eftir mikla baráttu og skoraði Grétar Áki þetta gríðarlega mikilvæga mark og tryggði KF sigur í leiknum með marki á 73. mínútu, hans þriðja mark í sumar.
Á lokamínútunum gerði KF tvær skiptingar til viðbótar en Þorsteinn Már kom inná fyrir Vitor og Sævar Gylfason fyrir Grétar Áka í uppbótartíma. KF gerði vel á loka mínútunum og hélt út og sótti þrjú stig.
KF er í 2. sæti með 44 stig og er aðeins einu stigi á eftir Kórdrengjum og 9 stigum frá KV. Liðið leikur næst við Kórdrengi á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 31. ágúst, og erum sex stiga leik að ræða. KF getur með sigri komist í topp sætið sem hefur verið eign Kórdrengja.