KF vann á Sandgerðisvelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar lék við Reyni í Sandgerði í dag. Liðin mættust síðast árið 2014 í tveimur deildarleikjum, og unnu sitthvoran leikinn. KF byrjaði leikinn betur og skoraði fyrsta markið á 23. mínútu, og var það Grétar Áki sem það gerði, hans fjórða mark í deild og bikar í ár. Staðan var 0-1 í hálfleik, en þá gerði KF tvöfalda skiptingu sem átti eftir að skila sér. KF skoraði aftur á 70. mínútu og var þar að verki Ljubomir Delic með sitt 4 mark í 6 leikjum fyrir KF. Á 78. mínútu skoraði svo Jakob Sindrason fyrir KF, en hann hafði komið inn á sem varamaður í upphafi síðari hálfleiks. Hans fyrsta mark í deild og bikar í sumar. Skömmu síðar gerði KF svo aðra tvöfalda skiptingu, og hélt út. Lokatölur 0-3 og góður útisigur og þrjú stig í hús. KF er í 5. sæti með 12 stig eftir 7 umferðir. Næsti leikur er heimaleikur gegn Einherja þann 30. júní kl. 20:00.