KF tapaði stórt í Garðabænum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Knattspyrnufélag Garðabæjar, öðru nafni KFG. Heimavöllur þeirra er  gervigrasvöllur Stjörnunnar í Garðabæ. KF sigraði fyrri leik liðanna fyrr í sumar 1-2 á Ólafsfjarðarvelli. KF hafði tapað síðustu tveimur deildarleikjum en KFG hafði tapað þremur af síðustu fjórum leikjum liðsins. Fyrir leikinn mátti búast við jöfnun leik, enda liðin hlið við hlið í deildinni og KFG aðeins þremur stigum fyrir neðan KF. Raunin var hins vegar allt önnur og eftir aðeins 13. mínútur var staðan orðin 3-0 fyrir heimamenn og þar af eitt mark úr víti. KF minnkaði muninn á 30. mínútu með marki frá hinum tvítuga Jakobi Sindrasyni, hans fjórða mark í sumar. KFG skoraði sitt fjórða mark 8 mínútum síðar, og var staðan 4-1 í hálfleik fyrir heimamenn.

KFG gerði sitt fimmta mark á 68. mínútu, staðan 5-1 og tæpar 20 mínútur eftir. KF gerði þrefalda skiptingu á 71. mínútu til að reyna brjóta upp spilið, en það hafði ekki nægjanleg áhrif í þetta skiptið og leiknum lauk með 5-1 sigri KFG.

Nú er aðeins þrjár umferðir eftir, og 9 stig í boði, en KF er sem stendur í 5. sæti deildarinnar, fjórum stigum frá 2. sæti en einum leik er ólokið í umferðinni sem getur haft áhrif á 2. sætið. Þriðja tap KF í röð staðreynd, og markatalan úr þeim leikum 1-11 (eitt skorað, 11 fengin á sig).