Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti lið Kára á Akranesi í 3. deild karla í knattspyrnu í dag. Í liði  Kára eru fjórir leikmenn sem hafa spilað með KF, þeir Páll Sindri Einarsson 2012 (2.deild) og 2013 (1.deild), Teitur Pétursson 2013 (1.deild), Sigurjón Guðmundsson 2014 (2.deild) og svo Alexander Már Þorláksson 2015 (2.deild) en Alexander varð þá markakóngur 2. deildar með miklum yfirburðum.  Kári er varalið ÍA á Akranesi og leika þeir sína heimaleiki í Akraneshöllinni. Liðið er vel skipað og hafa margir leikmenn þar leikið og verið skráðir í lið ÍA.

Leikurinn fór ekki vel af stað fyrir KF, en þeir misstu leikmann út af á 8. mínútu með rautt spjald, en það var Jón Árni Sigurðsson sem var rekinn útaf. Kári gerði svo tvö mörk í fyrri hálfleik og það fyrsta úr vítaspyrnu en staðan  var 2-0 í hálfleik. Eftir 64. mínútur var staðan orðin 6-0 fyrir heimamenn, Alexander kominn með tvö mörk og Andri Júlíusson kominn með þrennu, en hann á 108 leiki með ÍA á sínum ferli. KF fékk vítaspyrnu á 75. mínútu sem Valur Reykjalín tók, en náði ekki að skora úr, hann náði þó frákastinu og skoraði og minnkaði muninn í 6-1.

KF hefur því unnið tvo leiki og tapað tveimur leikjum í fyrstu fjórum umferðum Íslandsmótsins. Næsti leikur KF er gegn Þrótti Vogum á Ólafsfjarðarvelli þann 10. júní.