Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Þrótt Vogum, eða Ungmennafélagið Þrótt. Búist var við erfiðum leik, enda hafði Þróttur aðeins fengið á sig 15 mörk í deildinni í 13 leikjum, og aðeins tapað 3 leikjum, en liðið var þó með tveimur færri stig en KF fyrir þennan leik.  KF vann fyrri leik liðanna í sumar, 2-0.

Það voru heimamenn í Þrótti sem skoruðu fyrsta markið og kom það á 20 mínútu. Staðan var 1-0 í hálfleik fyrir heimamenn, í þeim síðari bætti Þróttur svo við marki og kom það á 71. mínútu og var þar að verki markahæsti maður Þróttar, Andri Björn, með sitt 8 mark í deildinni í 14 leikjum. Svo fór að Þróttur náði að landa sigri , 2-0 og komust með því upp fyrir KF og eru í 2. sæti deildarinnar með 25 stig. KF er í 3. sæti með 24 stig, en 14. umferð er ekki lokið og geta Vængir Júpíters einnig skipt um sæti við KF ef þeir fá stig úr sínum leik í dag.

KF á nú fjóra leiki eftir af Íslandsmótinu, og geta mest náð sér í 12 stig úr þeim leikjum. Það er ljóst að baráttan stendur um 2. sætið, en Kári leiðir deildina 33 stig og eru líklegir til að sigra deildina í ár.

Uppfært: Fjórtándu umferð lauk í dag með tveimur leikjum, þar sigraði meðal annars Vængir Júpíters lið Einherja með einu marki og eru þeir komnir með 27 stig en KF datt niður í 4. sætið.