Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti í Reykjaneshöllina í dag og lék við Njarðvík í Lengjubikar karla í B deild. Liðin léku saman í 2. deildinni síðasta sumar og vann KF þá heimaleik sinn 1-0 og svo var jafntefli í síðari leik liðinna í Njarðvík, 1-1. KF mætti með þunnskipaðan hóp í þennan leik, aðeins einn varamaður var á leikskýrslu. Njarðvík byrjaði leikinn betur og var komið í 2-0 eftir 33 mínútur. Njarðvík byrjaði svo síðari hálfleikinn vel og gerði mark á 48. mínútu. KF komu sterkir til baka og skoruðu tvö mörk með stuttu millibili, fyrsta á 53. mínútu en það var Aksentije Milisic sem skoraði það, en Valur Reykjalín Þrastarson minnkaði svo muninn í 3-2 á 58. mínútu. Njarðvík innsiglar svo sigurinn á 74. mínútu, lokatölur 4-2. Njarðvík notaði sex skiptingar í leiknum í síðari hálfleik og var því hálft liðið þeirra með óþreytta fætur. KF notaði sína einu skiptingu seint í síðari hálfleik. Þess má geta að bæði Valur og Aksentije hafa skorað fyrir KF í síðustu tveimur leikjum þeirra í Lengjubikarnum.  Næsti leikur liðsins er gegn Berserkjum, laugardaginn 1. apríl í Boganum á Akureyri.