KF sigraði Dalvík á Ólafsfjarðarvelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík/Reynir mættust í 3. deild karla í knattspyrnu í dag á Ólafsfjarðarvelli. KF heldur áfram að safna lið og ætla gera allt sem þeir geta til að komast strax aftur upp í 2. deildina. Í dag fengu þrír erlendir leikmenn leikheimild með KF fyrir sumarið, og eru það tveir Serbar og einn frá Nýja Sjálandi. Þá hafa sex leikmenn gengið til liðs við KF í maí og alls ellefu á þessu ári. Þessir glænýju leikmenn KF eru Milan Marinkovic, 31 árs, sem lék með KF árið 2015 og á skráða 17 leiki fyrir félagið og 1 mark. Ljubomir Delic er nýkominn til félagsins og hefur ekki leikið áður á Íslandi, hann er 22 ára. Benjamin O’Farrell er frá Nýja Sjálandi og hefur ekki leikið áður á Íslandi, hann er 19 ára.

Völlurinn var í góðu ástandi í dag, hægur 4 m/s vindur og um 8 gráðu hiti. Það voru gestirnir sem gerðu fyrsta markið rétt fyrir leikhlé, en Þröstur Jónasson skoraði á 44. mínútu. Staðan var 0-1 í hálfleik fyrir Dalvík. KF jafnar leikinn á 54. mínútu með marki frá Milan Marinkovic, hans annað mark fyrir KF á ferlinum. Sjö mínútum síðar kemst KF yfir með marki frá hinum unga og efnilega Vitor Vieira Thomas, hans fyrsta mark í deild- og bikarkeppni fyrir KF. Nýliðinn Ljubomir Delic skorar svo mark á lokamínútunni og tryggir sigurinn fyrir heimamenn, 3-1.

Dalvík gerði 5 innáskiptingar í leiknum, en það er leyfilegt í 3. deild karla, þeir gerðu meðal annars tvöfalda skiptingu strax í hálfleik og einnig þegar 7 mínútur voru eftir. Dalvík hafði fengið hinn reynslumikla Sandor Matus í markið, en hann hefur leikið 296 leiki á Íslandi og er 41 árs gamall og á eflaust eftir að nýtast Dalvíkingum vel í sumar.

Góð byrjun á mótinu hjá KF, góður heimasigur í fyrsta leik. Næsti leikur er þann 20. maí gegn Vængjum Júpíters á gervigrasvelli Fjölnis í Grafarvogi.