Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Augnablik í Kópavogi mættust í dag á gervigrasinu í Fagralundi. Augnablik hefur verið erfitt heim að sækja og KF hefur átt erfitt með að sigra útileikina síðustu misseri. Strákarnir í KF eru enn að stilla strengina eftir að hafa fengið nýlega nokkurn liðstyrk skömmu fyrir Íslandsmótið.

Tvær breytingar voru frá síðasta leik KF, en Valur Reykjalín og Birkir Freyr komu inn í byrjunarliðið fyrir Grétar Áka og Jakob Auðunn. Aksentije Milisic kom aftur í hópinn eftir leikbann og byrjaði óvænt á bekknum.

KF byrjaði leikinn vel og komust yfir á 18. mínútu og var það Valur Reykjalín sem skoraði markið, hans fimmta mark fyrir félagið í 38 leikjum. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik en þrjú gul spjöld fór þó á loft hjá dómarnum í fyrri hálfleik og fékk Patrekur hjá KF eitt þeirra. Staðan 0-1 í hálfleik.

Augnablik jafnaði metin á 57. mínútu en aðeins tólf mínútum síðar komst KF aftur yfir með marki frá varnarmanninum Jordan Damachoua, hans annað mark fyrir félagið í 18 leikjum. Staðan orðin 1-2. Nokkrum mínútum eftir markið gerði KF skiptingu þegar Andri Snær kom inná fyrir Sævar Gylfason. Mikil miðjubarátta var eftir mark KF og lyfti dómarinn gula spjaldinu fimm sinnum. Á 77. mínútu gerði KF aðra skiptingu þegar Stefán Bjarki kom inná fyrir Val Reykjalín, sem er enn að komast í leikform eftir langvarandi meiðsli. KF gerði sína þriðju skiptingu á 86. mínútu þegar Aksentije Milisic kom inná fyrir Jordan Damachoua.

Á fyrstu mínútu uppbótartíma skoraði Alexander Már þriðja mark KF og gulltryggði sigurinn, staðan orðin 1-3 þegar nokkrar mínútur voru eftir af uppbótartímanum, fyrsta mark Alexanders í sumar fyrir KF.  Í uppbótartímanum gerði KF svo tvær skiptingar til viðbótar og lét þar með tíman renna út og vann góða sigur á Augnablik 1-3, eftir nokkuð svekkjandi jafntefli við Álftanes í síðasta leik.