Knattspyrnufélag Fjallabyggðar hefur samið við sjö nýja leikmenn fyrir átökin í 3. deildinni í sumar. Allir leikmennirnir fengu leikheimild 21. febrúar og koma þrír úr KA, tveir úr Einherja einn úr Reyni Sandgerði og Nökkva.

Anton Örn Pálson kemur frá KA og er 20 ára. Birkir Freyr Andrason kemur frá KA og er 20 ára. Garðar Sigurgeirsson kemur frá Nökkva, en hefur leikið fyrir Dalvík og Magna, hann er 28 ára og 65 leiki í meistaraflokki. Kristófer Máni Sigurgeirsson kemur frá Reyni Sandgerði og hefur leikið 47 leiki í meistaraflokki og er 22 ára.  Óliver Jóhannsson kemur frá Einherja og á 50 leiki í meistaraflokki og er 21 árs. Sigurður Donys Sigurðsson er líklega þekktasta nafnið af þessum sjömenningum, en hann kemur frá Einherja og hefur leikið 250 leiki í meistaraflokki  og skorað 102 mörk. Hann er  33 ára og mikill reynslubolti. Hann hefur einnig spilað með Þór, Hetti, Huginn, Skallagrími, og Reyni Sandgerði.  Stefán Bjarki Tulinius kemur frá KA, en þar hefur hann leikið upp yngri flokkana. Hann er 20 ára og er að stíga fyrstu skrefin í meistaraflokki.

Það er ljóst að KF ætlar að gera atlögu að komast uppúr deildinni í ár og vonandi nær þetta nýja lið að smella saman fyrir sumarið.

Tveir leikmenn hafa yfirgefið klúbbinn á þessu ári, en það eru Benóný Sigurðarson sem á 15 leiki fyrir félagið og fór til Dalvíkur og Hrannar Snær Magnússon fór til Vals og þaðan til KH.

Svo er spurning hvort einhverjir erlendir leikmenn bætist við rétt fyrir mót eins og verið hefur síðustu árin.

Héðinsfjörður mun fjalla um leiki liðsins í sumar þegar úrslit liggja fyrir.