Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Tindastól á Sauðárkrók í dag í Lengjubikarnum. Leikurinn átti að fara fram kl. 14:00 en varð að fresta um klukkustund þar sem gleymdist að moka snjóinn af gervigrasinu.  Heimamenn byrjuðu leikinn betur og skoruðu fyrsta mark leiksins á 14. mínútu og var þar að verki Hólmar Skúlason. Tindastóll leiddi 1-0 í hálfleik, en á 60. mínútu jafnar KF metin í 1-1 þegar Sævar Gylfason skoraði sitt fyrsta meistaraflokks mark, en drengurinn er fæddur árið 2000. Tindastóll gerði tvöfalda skiptingu fljótlega eftir jöfnunarmarkið og á 70. mínútu komust þeir aftur yfir með marki frá Eysteini Sigmarssyni, staðan 2-1 og 20 mínútur eftir. Grétar Áki kom inná sem varamaður fyrir KF í síðari hálfleik fyrir Sigurð Donys, en Grétar jafnaði leikinn á 90. mínútu í 2-2 og áttu lokamínúturnar eftir að verða fjörugar.

Eysteinn Sigmarsson skoraði aftur fyrir Tindastól í uppbótartíma og kemur þeim yfir 3-2 en skömmu síðar missa Stólarnir mann af velli með rautt spjald þegar skammt var eftir. KF gafst ekki upp og Sævar Gylfason skoraði sitt annað mark og jafnaði leikinn í 3-3. Stólarnir misstu svo annan mann af velli strax eftir markið, en það var Hólmar Skúlason sem fékk sitt annað gula spjald.

KF náði því jafntefli alveg í blálokin í þessum leik í snjókomunni á Sauðárkróki.  Næsti leikur KF er gegn Reyni Sandgerði um næstu helgi í Reykjaneshöllinni. Stólarnir spila næst við Víði eftir viku.

Mynd: KF.