Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Fyrstu leikir Íslandsmótsins í 3. deild í knattspyrnu fóru fram núna um helgina. Það voru fjórir leikir á laugardag og keppti meðal annars Knattspyrnufélag Fjallabyggðar við Ungmennafélag Álftanes (UMFÁ). KF strákarnir tóku rútuna á laugardagsmorgun og væru tilbúnir í slaginn á Bessastaðavelli.  Veðbankarnir reiknuðu með sigri KF í þessum leik en Álftanes er ný komið upp úr 4. deildinni en KF hefur verið í toppbaráttu í 3. deild síðustu árin.

KF hefur verið að styrkja liðið á síðustu vikum með öflugum leikmönnum sem komu beint í byrjunarliðið í þessum leik. Sævar Gylfason kom frá Dalvík í vor og hefur leikið tvo bikarleiki fyrir KF, en þetta var hans fyrsti deildarleikur. Alexander Már er kominn aftur til KF og var kominn beint í byrjunarliðið. Pétur Búason er annar nýr leikmaður sem kom á láni til KF fyrir nokkrum dögum frá Magna, og spilaði hann sinn fyrsta leik fyrir félagið.

En það voru KF strákarnir sem byrjuðu leikinn betur og skoruðu strax á 3. mínútu leiksins eftir hornspyrnu og var þar að verki nýliðinn Sævar Gylfason, hans fyrsta mark fyrir félagið í deild og bikarleik. Staðan 0-1 í upphafi leiks og reiknuðu nú stuðningsmenn KF með stórsigri. KF fengu fá opin tækifæri í fyrri hálfleik og var staðan því 0-1 í hálfleik eftir mikla baráttu beggja liða. Áður hafði þó nýliðinn Patrekur Búason hjá KF náð sér í gult spjald, og Valur Reykjalín kom inná fyrir Grétar Áka sem tognaði á 40. mínútu, en Grétar var fyrirliði liðsins í þessum leik.

Baráttan hélt áfram í síðari hálfleik en fátt var um opin marktækifæri. Halldór Logi kom inná fyrir Jakob Auðun á 76. mínútu og heimamenn gerðu einnig fjórar skiptingar í síðari hálfleik. Undir lok leiksins fengu svo Álftanes vítaspyrnu, en Halldór Ingvar markmaður KF varði vel, en frákastið fór til heimamanna sem skoruðu og jöfnuðu leikinn á 88. mínútu. Ekki fleiri færi voru í þessum leik og endaði með 1-1 jafntefli sem mætti telja sanngjarnt miðað við leikinn í heild sinni, en svekkjandi hjá KF að tapa niður forskotinu sem þeir höfðu frá upphafi leiks.

KF leikur næst gegn Augnablik á gervigrasinu í Fagralundi, 11. maí kl. 16:00.