Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Einherji mættust í dag í Lengjubikarnum. Leikurinn fór fram í Boganum á Akureyri og taldist heimaleikur KF.

Nokkrir nýir leikmenn eru núna á láni hjá KF til að brúa bilið fram að Íslandsmóti en mögulega eru einhverjir þeirra á lengri lánssamningi. Einn nýr leikmaður er einnig í hópnum, Ingi Freyr Hilmarsson og kom hann beint inn í byrjunarliðið. Hann hefur spilað 199 leiki í meistaraflokki í deild- og bikarleikjum og tæplega 100 leiki deildarbikar Kjarnafæðismótinu með Þór, KA og Leiftri. Ingi Freyr kemur með mikla reynslu inn í liðið, en margir öflugir leikmenn hafa horfið á braut frá síðsta ári.

Ungu strákarnir og lánsmennirnir taka núna stærra hlutverk fram að Íslandsmótinu þar til hópurinn verður fullskipaður. Sævar Gylfason minnti hressilega á sig í þessum leik og skoraði fyrsta mark leiksins í fyrri hálfleik og kom KF í 1-0 og var það einnig staðan í hálfleik.

Allt stefndi í 1-0 sigur hjá KF en í blálokin skoraði Sævar aftur, og sitt annað mark og gulltryggði góðan sigur á Einherja.

Flottur sigur hjá KF en þessi lið gjörþekkja hvert annað og hafa leikið fjölda leikja síðustu árin enda fylgst að í deildinni.