Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar spilaði tvo leiki um s.l. helgi. Fyrri leikurinn var gegn Hamar í Hveragerði og síðari gegn Aftureldingu B í Mosfellsbæ. Leikurinn gegn Hamar átti eftir að vera jafn, en í fyrstu hrinu leiddu heimamenn nánast frá upphafi, en náðu þó aldrei að slíta sig langt frá BF. Hamar komst í 6-3 en BF minnkaði muninn í 7-6 og svo var jafnt 11-11.  Í stöðunni 13-11 tekur BF leikhlé, en heimamenn héldu áfram að leiða og komust í 18-14.  BF gerði skiptingu og kom Þórarinn Hannesson inná fyrir Gísla Martein.  BF jafnaði leikinn í 19-19 og tóku þá heimamenn leikhlé. Í framhaldinu skoraði Hamar þrjú stig og komust í 22-19 og tóku þá gestirnir sitt annað leikhlé. Aftur minnkaði BF muninn í 22-21 og 23-22, en lengra komst BF ekki og Hamar vann fyrstu hrinuna 25-22.

Í annari hrinu byrjaði Hamar betur og komst í 3-0 og tóku gestirnir þá strax leikhlé. BF minnkaði muninn í 4-2 og 7-3 en þá kom góður kafli hjá BF sem skoraði sex stig í röð og breyttu stöðunni í 7-9 og þá tóku heimamenn leikhlé til að skipuleggja sig. Aftur náði BF góðum kafla og komust í 10-14, en Hamar náði einnig að svara til baka og var staðan orðin 14-16. BF náði þá að skora mjög mikilvæg stig og komst í 14-20, en heimamenn minnkuðu muninn í 19-22. BF var sterkara á lokasprettinum og unnu hrinuna 20-25 og jöfnuðu í 1-1.

Þriðja hrinan var líka ansi jöfn og skiptust liðin á að hafa forystu. Heimamenn byrjuðu þó aftur betur og komust í 5-2 og tók þá BF leikhlé, og úr varð skipting og kom Þórarinn inn fyrir Gísla Martein. BF náði ágætist kafla og minnkuðu muninn í 7-7 og aftur varð jafnt í stöðunni 13-13. Heimamenn voru aðeins sterkari og héldu forystunni út hrinuna. BF minnkaði þó muninn í 18-17 og 22-20, en Hamar vann hrinuna 25-20 og komust í 2-1.

Fjórða hrinan var líka jöfn eins og allur leikurinn, en BF hélt þó forystu nánast alla hrinuna. Jafnt var í stöðunni 4-4 en þá kom góður kafli hjá BF og breyttu þeir stöðunni í 6-10. Heimamenn komu grimmir til baka og jöfnuðu í 12-12 og tók þá BF leikhlé. Aftur var jafnt í 15-15 og 18-18 en þá kom aftur góður kafli hjá BF og breyttu þeir stöðunni í 18-21 og 20-22. Lengra komust heimamenn ekki og BF vann hrinuna 20-25.

Í oddahrinunni byrjaði BF betur og allt leit vel út í stöðunni 3-9 og 6-10. Heimamenn skoruðu þá 5 stig og breyttu stöðunni í 11-10. Aftur var jafnt í 11-11 en heimamenn áttu lokastigin og voru sterkari á lokakaflanum og unnu hrinuna 15-11 og leikinn 3-2.

Leikurinn var í heildina jafn og gat farið á báða vegu og svekkjandi tap fyrir BF.