Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við HKarlana í Benecta deildinni í blaki í dag á Siglufirði. HKarlarnir eru sumir hverjir með mikla reynslu í blaki í meistaraflokki en aðrir aðeins með reynslu úr öldungamótum. HKarlarnir mættu þó með þunnskipaðan hóp í þetta verkefni og vantað meðal annars Karl Sigurðsson sem er margfaldur Íslandsmeistari með HK. HKarlarnir höfðu þó tapað síðustu tveimur leikjum og BF tapað síðustu þremur leikjum.

Gonzalo þjálfari BF var í stuttbuxum á hliðarlínunni og var kominn á leikskýrsluna og gerði sig líklegan að taka þátt ef einhver væri ekki að standa sig í dag. Daníel Pétur Daníelsson var kominn aftur í lið BF eftir fjarveru í fyrstu leikjum vetrarins, og munar um minna.

HKarlarnir byrjuðu fyrstu hrinu ágætlega og komust í 1-5 og var uppspilarinn Birkir Elmarsson öruggur í sínum aðgerðum og verkfræðingurinn Guðmundur Jónsson var öflugur í hávörninni að vanda. BF komust hinsvegar fljótt inn í leikinn og jöfnuðu 7-7 og náðu í framhaldi forskoti og yfirhöndinni í hrinunni. BF komst í 13-9 og 18-11 og tóku nú HKarlarnir leikhlé til að kasta mæðinni, enda liðið komið yfir léttasta skeiðið. BF hélt áfram að spila vel og komust í 21-12 og 24-15 og höfðu mikla yfirburði í hrinunni. Uppspilið var almennt með ágætum hjá liðinu og minna var um þessa föstu skotbolta sem hafa ekki verið að ganga upp í síðustu leikjum. BF kláraði hrinuna örugglega 25-16 og var komið í 1-0.

Í annarri hrinu var meiri sveifla á forystunni en BF byrjaði vel og komst í 7-3 en þá hrukku HKarlarnir í gang og skoruðu 9 stig í röð og breyttu stöðunni í 7-12 og í millitíðinni tók þjálfari BF leikhlé. BF komst aftur í gang og minnkuðu muninn í 12-14 og jöfnuðu svo 17-17. BF náði loks yfirhöndinni og komust í forystu 21-18 og 22-20 og var talsverð spenna í lok hrinunnar. BF kláraði svo hrinuna örugglega 25-21 eftir sveiflukenndan leik. Staðan orðin 2-0.

Í þriðju hrinu gekk allt upp hjá BF í upphafi hrinunnar og komst liðið í 9-2 og tóku þreyttir HKarlar leikhlé. BF komst í 12-2 en þá tóku HKarlar við sér og náðu nokkrum stigum til baka og breyttu stöðunni í 14-6. BF komst í 17-6 og 18-11 en hér hafði HKarlar skoraði 4 stig í röð og voru komnir í gang aftur. BF færðist nær sigrinum og komst í 20-11 en HKarlar minnkuðu muninn í 20-13 og 22-17. BF var við það að sigra í stöðunni 24-17 en gestirnir settu spennu í leikinn og léku vel á meðan BF gerði ódýr mistök og minnkuðu muninn í 24-21. BF áttu þó lokastigið og kláruðu leikinn 25-21 og sigruðu leikinn sanngjarn 3-0.

Spilið var að ganga betur í þessum leik og var uppspilið vel yfir netinu í góðum boga svo smassarar höfðu betri tíma til að klára sóknina vel í flest skiptin. Enn er hægt að bæta leikinn og minnka mistökin. Fyrsti sigurinn í fjórum tilraunum hjá karlaliði BF í haust og var vel fagnað í leikslok.