Blakfélag Fjallabyggðar lék við Aftureldingu-B í dag á Siglufirði, og fór leikurinn fram strax á eftir kvennaleiknum. Í lið BF vantaði meðal annars Óskar Þórðarsson, sem hefur spilað stórt hlutverk í liðinu undanfarin ár. Agnar Óli Grétarsson (f.2008) lék sem liberó í dag fyrir BF og stóð sig vel miðað við aldur og litla reynslu. Afturelding er á toppi deildarinnar og var búist við erfiðum leik fyrir BF sem hefur aðeins fengið 5 stig úr leikjum vetrarins.

Afturelding fór vel af stað í fyrstu hrinu og komst í 2-8, 3-11 og 6-12. BF komst þá aðeins betur inn í leikinn og minnkaði muninn í 9-12 og 12-14. Afturelding tók leikhlé í stöðunni 14-15 og komust fljótlega í 15-20 og tóku þá heimamenn leikhlé. Daníel Pétursson var settur inn á til að setja meiri þunga í sóknarleikinn síðustu mínúturnar. Afturelding komst í 18-23 og kláraði leikinn 18-25.

BF byrjaði aðra hrinu vel og lét finna fyrir sér og komust í 5-1 en Afturelding jafnaði 5-5 og komust yfir 7-9. Gestirnir sigu hægt framúr og náðu upp góðu forskoti og voru sterkari þegar leið á hrinuna. Afturelding komst í 11-16 og tóku þá heimamenn leikhlé. BF náði að minnka muninn í fjögur stig en komust ekki nær gestunum sem eru með sterkt lið.  Loktatölur í hrinunni voru 16-25 og vann Afturelding hana með nokkru öryggi.

Þriðja hrinan gekk ekki vel hjá BF og var aldrei möguleiki eftir fyrstu mínúturnar.  Jafnt var í stöðunni 3-3 en eftir það átti Afturelding leikinn og komust í 4-13 með því að skora 8 stig í röð og tók þá þjálfari BF loksins leikhlé til að stöðva þetta áhlaup. BF náði einu stigi til viðbótar strax en Afturelding refsaði strax til baka og komust í 7-23 og sýndu mikla yfirburði á vellinum. Lokatölur urðu 10-25 í öruggum sigri Aftureldingar.

Erfiður leikur í dag fyrir BF en liðið leikur næst 16. febrúar gegn HK-B á Siglufirði.