Skógræktarfélag Eyfirðinga býður fólki að höggva sín eigin jólatré í Laugalandsskógi á Þelamörk helgarnar 8. – 9. og 15. – 16. desember, kl. 11-5. Boðið er upp á ketilkaffi, kakó og piparkökur þegar draumatréð er fundið. Oft skapast skemmtileg útivistarstemmning á svæðinu og heimsókn á Þelamörkina er ómissandi fyrir margar fjölskyldur í aðdraganda jóla.
Verð er kr. 8.000 á tré óháð stærð, mest er um stafafuru en líka von um rauðgreni og blágreni. Einnig verður til sölu eldiviður, íslenskar jólagreinar, tröpputrén sívinsælu og mögulega handverk unnið úr skógunum.
Skógræktarfélagið vill einnig minna á aðventutrén sem eru afhent í þungum trékassa úr eyfirsku lerki og ætluð til notkunar utandyra við heimili og fyrirtæki. Í boði eru stafafura og rauðgreni, 1,5-3 metra há og hægt er að fá þau afhent með ljósaseríum ef óskað er. Starfsmenn félagsins færa viðskiptavinum tréð á aðventunni og sækja síðan aftur í endaða janúar eða eftir samkomulagi.
Allar nánari upplýsingar í síma 893-4047 eða á netfanginu ingi@kjarnaskogur.is