Íþróttavellir á Akureyri komu mjög illa undan vetri á síðasta ári og vegna kalskemmda var ásigkomulag knattspyrnuvalla og golfvallarins að Jaðri einstaklega slæmt. Fyrir vikið þurftu KA, Þór og GA að leggja í umtalsverðan kostnað við lagfæringar á svæðum sínum, en fengu félögin þó styrki frá Akureyrarbæ.
Útlitið í ár er hins vegar mun bjartara og líta vellirnir vel út miðað við árstíma. Félögin leituðu eftir fjárframlagi frá Akureyrarbæ vegna ástands vallanna í fyrra og lagði bærinn félögunum til milljónir króna vegna þeirra aðgerða sem grípa þurfti til við lagfæringar. Sú vinna, sem framkvæmd var í fyrra, virðist ætla að skila sér vel, auk þess sem veðurfarslegar aðstæður hafa verið betri í ár en í fyrra.