Sunnudaginn 1. september kl. 17.00 leikur Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, organisti í Akureyrarkirkju, á orgel Ólafsfjarðarkirkju og bera tónleikarnir heitið Íslensku konurnar og orgelið.
Eins og nafnið gefur til kynna er eingöngu tónlist íslenskra kvenna á efnisskránni. Konur hafa hingað til ekki fengið mikla athygli sem orgeltónskáld en efnisskráin spannar samt tónlist í ýmsum stílum, stór verk og lítil, hugljúf og ljóðræn, gáskafull og dansandi.
Tónleikarnir eru tæplega klukkustundar langir og aðgangur er ókeypis.
Um Sigrúnu:
Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og í Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn.
Þaðan lauk hún meistaraprófi í kirkjutónlist undir handleiðslu prof. Bine Bryndorf. Í námi sínu lagði hún sérstaka áherslu á barnakórstjórn, tónlistaruppeldi barna og kenningar um tónlistarþroska barna. Hún heldur reglulega tónlistarnámskeið fyrir foreldra ungbarna.
Sigrún hefur starfað sem organisti og kórstjóri í Reykjavík, í Kaupmannahöfn og á Akureyri.
Hún hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og erlendis bæði sem einleikari, meðleikari og kórstjóri. Sigrún hefur sótt fjölda námskeiða m.a. hjá Olivier Latry, Hans-Ola Ericsson, Michael Radulescu og Mattias Wager.