Leitin að hvítabirninum hefur jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna á Norðurlandi vestra, segir starfsmaður samtaka sveitarfélaga á svæðinu. Eldri borgarar sem skoðuðu Vatnsnesið í gær sýndu engin merki um hræðslu við hvítabjörn.

Kastljósi fjölmiðlanna hefur verið beint að Húnaþingi, eftir að leitin að hvítabirninum hófst. Vertíðin hjá ferðaþjónustufyrirtækjum stendur sem hæst og segir Gudrun Kloes hjá Samtökum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra að þessi mikla athygli skaði síður en svo ferðaþjónustuna á svæðinu.

„Ég ég held að hún hafi bara jákvæð áhrif, við sáum það strax í gær, þá streymdu menn að og voru mjög opnir fyrir því að skoða sig um og svipast eftir dýrinu. Þetta er ekki ólíkt náttúruhamförum, sem hafa svo jákvæð áhrif þegar þeim lýkur og við vonum bara að það gerist ekkert hræðilegt á meðan, þá er þessi björn bara algjör gullmoli fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu,” sagði Gudrun. Hún segir að ekki hafi nokkur hræðslumerki verið að sjá á ferðamönnum sem komu í gær.
„Við sáum það í gær, þá fór hópur eldri borgara í Reykjavík um svæðið. Þeir voru bara rólegir,” sagði Gudrun Klaes hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi.

Heimild: Rúv.is