Frjálsíþróttakappinn úr Tindastól, Ísak Óli Traustason, var útnefndur Íþróttamaður Skagafjarðar 2019 við hátíðlega athöfn í Ljósheimum 27. desember síðastliðinn. Við sama tækifæri var Sigurður Arnar Björnsson, yfirþjálfari Fimleikadeildar UMFT og verkefnastjóri landsliðsmála hjá FRÍ, útnefndur Þjálfari ársins 2019 hjá UMSS.

Ísak Óli og Jóhann Björn Sigurbjörnsson voru í hópi sjö íþróttamanna UMSS, sem fengu viðurkenningu fyrir að taka þátt í verkefnum landsliða Íslands, en þeir voru m.a. báðir í landsliðinu, sem sigraði í 3. deild Evrópubikarkeppninnar í frjálsíþróttum í sumar og færist því í 2. deild næst.

Ísak Óli varð þrefaldur Íslandsmeistari innanhúss, í 60m grindahlaupi, langstökki og sjöþraut, og einnig Íslandsmeistari í 110m grindahlaupi utanhúss.

Þá voru þau Andrea Maya Chirikadzi og Magnús Eli Jónsson úr Fimleikadeild UMFT í hópi 14 ungmenna, sem hlutu hvatningarverðlaun UMSS, fyrirmyndir með góða ástundun og hegðun innan vallar sem utan.

Mynd: umss.is