Enn vantar níu starfsmenn í afleysingar í hin ýmsu störf á öllum starfsstöðum málefna fatlaðs fólks og eldra fólks á Sauðárkróki og Hvammstanga. Um lögbundna mikilvæga þjónustu er að ræða og því mjög alvarlegt að ekki hafi tekist að fá fólk til starfa. Mikil vöntun er til dæmis í búsetukjarna fyrir fatlað fólk, Iðju dagþjónustu og stuðnings- og stoðþjónustu fyrir eldra fólk s.s. dagdvöl aldraðra og heimaþjónustu. Ljóst er að skerða þarf þjónustu, s.s. heimaþjónustu og dagdvöl aldraðra í Skagafirði í sumar ef ekki tekst að manna afleysingar.
Einnig er í skoðun hvort loka þurfi dagdvöl aldraðra tímabundið í sumar. Miðað við núverandi stöðu er fyrirséð að starfsfólk muni ekki hafa tök á því að taka fullt sumarorlof fimmta sumarið í röð.
Erfitt er að ráða í hvað veldur því að ekki næst að ráða í auglýst störf, sem eru öll gefandi og vel borguð, með möguleika á sveigjanlegum vinnutíma og stöðuhlutfalli.
Hægt er að kynna sér störf í boði og sækja um störf hjá Skagafirði hér.
Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Skagafjarðar.