Í þættinum á Sprengisandi á Bylgjunni í gær lagði forstjóri Landsnets fram þá ásökun gagnvart Sveitarfélaginu Skagafirði að það hefði látið Landsnet bíða í tvö og hálft ár eftir leyfi til framkvæmda við Sauðárkrókslínu 2, sem er jarðstrengur sem mun liggja frá spennivirki í Varmahlíð til Sauðárkróks, og hefði leyst stóran hluta þeirra rafmagnsvandamála sem upp komu í Skagafirði í óveðri síðustu viku.

Hið rétta er að Sauðárkrókslína 2 hefur verið inni á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar síðan sveitarstjórn samþykkti aðalskipulag fyrir tímabilið 2009-2021, þann 17. desember árið 2009. Það skipulag var staðfest 25. maí 2012 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 11. júní 2012.

Þrátt fyrir það hóf Landsnet ekki undirbúning framkvæmda fyrr en árið 2017, eða meira en 7 árum eftir samþykki sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar á aðalskipulagi þar sem Sauðárkrókslína 2 var komin inn. Í erindi frá Landsneti dags. 11. janúar 2017 var forsaga málsins rakin og m.a. sagt: „Vegna breyttra aðstæðna var verkið sett í biðstöðu árið 2009, en er nú komið á dagskrá að nýju.“ Í sama erindi var óskað eftir breytingu á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna áforma Landsnets um breytta legu á hluta strengsins.

Sveitarfélagið Skagafjörður lagði til við Landsnet í kjölfarið að fyrirtækið myndi tvískipta framkvæmdinni og hefjast strax handa við þann hluta strengsins sem hafði verið samþykktur í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2009-2021 á meðan unnið væri að breytingum á aðalskipulagi. Svar Landsnets var að þeir vildu bjóða verkið út sem eina heild. Landsnet hefði hins vegar þá þegar getað hafist handa við framkvæmdir u.þ.b. helmings leiðarinnar.

Breytingar á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar, þar sem breytt lega Sauðárkrókslínu 2 var komin inn, voru svo samþykktar í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar 24. apríl 2019.

Beiðni um framkvæmdaleyfi frá Landsneti barst ekki sveitarfélaginu í kjölfarið fyrr en með bréfi dags. 26. júní 2019. Skipulags- og byggingarnefnd Sveitarfélagins Skagafjarðar veitti leyfið fyrir sitt leyti 18. júlí 2019 sem fékk staðfestingu byggðarráðs 31. júlí 2019.

Í ljósi ofangreinds vísar Sveitarfélagið Skagafjörður ásökunum forstjóra Landsnets um drátt á veitingu leyfa vegna Sauðárkrókslínu 2 til föðurhúsanna. Landsneti hefði verið í lófa lagið að hefja framkvæmdir við lagningu línunnar fyrir mörgum árum síðan.

Texti: skagafjordur.is.