Samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er orsök þessa faraldurs ný tegund kórónaveiru, sem hefur ekki áður greinst í mönnum. Enn er ekki vitað hversu smitandi veiran er, hversu alvarlegum veikindum veiran veldur eða hverjar smitleiðirnar eru. Faraldsfræðilegar upplýsingar eru enn takmarkaðar og því er margt óljóst varðandi útbreiðslu sjúkdómsins. Uppruni veirunnar virðist einkum vera í Wuhan borg í Kína og aðallega tengt ákveðnum matarmarkaði í borginni, en verið er að rannsaka frekari útbreiðslu veirunnar í Kína.

Hver eru einkenni kórónaveiru?

Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta o.s.frv. 2019-nCoV getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4-8 degi veikinda.

Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmar +354 544-4113) varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið.

Þessir einstaklingar eru sérstaklega beðnir um að mæta ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum í síma. Einstaklingar með grunsamlega eða staðfesta sýkingu verða settir í einangrun skv. nánari leiðbeiningum. Einkennalausir einstaklingar sem hafa verið í samneyti við einstaklinga með staðfesta eða líklega sýkingu verða settir í sóttkví skv. nánari leiðbeiningum.

Sóttvarnalæknir vill hvetja einstaklinga á ferðalögum erlendis, sérstaklega í Kína að:

  • Gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti.
  • Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með hósta og almenn kvefeinkenni.
  • Forðast samneyti við villt dýr eða dýr á almennum mörkuðum.
  • Nota pappír/klút fyrir vit við hnerra þegar um kvefeinkenni er að ræða og þvo hendur reglulega.
  • Láta heilbrigðisstarfsmenn vita um ferðir sínar ef einstaklingar þurfa að leita til heilbrigðiskerfisins hér á landi.