Þrjú íbúðarhús við Kambastíg á Sauðárkróki voru rýmd síðdegis í dag, sunnudaginn 18. nóvember, eftir að snjóflóð féll fyrir ofan þau og spýja féll að efsta húsinu. Mikil snjóhengja er í Nafarbrúnum fyrir ofan húsin og var því brugðið á það ráð að rýma þau. Fólkið sem þar býr hefur fengið inni hjá vinum og kunningjum.

Mikið hefur snjóað á Sauðárkróki og er meiri snjór í bænum en bæjarbúar eiga að venjast síðustu ár. Rýmingin gildir í það minnsta í nótt en staðan var metin á ný í hádeginu á morgun. Almannavarnanefnd tekur þá ákvörðun um framhaldið.

Ekki er vitað um önnur flóð á Norðurlandi en það sem féll á Sauðárkróki í dag. Þó getur verið að fleiri snjóflóð hafi fallið en fólk ekki orðið vart við það enda er fólk minna á ferli nú en venjulega vegna veðurs. Hætta er þó talin á snjóflóðum í giljum og hlémegin í fjöllum þar sem snjór hefur safnast saman.

Eigendur hesthúsa við Siglufjörð og Ólafsfjörð eru hvattir til að fara varlega enda er talin snjóflóðahætta í aðkomunni að hesthúsunum.

Heimild: Rúv.is