Hús Egilssíldar rifið á Siglufirði

Hús Egilssíldar við Gránugötu 27-29 á Siglufirði verður nú rifið, en húsið hýsti í mörg ár fyrirtækið Egilssíld. Húsið er byggt árið 1936 og er rúmlega 965 fm. Það er Byggingafélagið Berg og fyrirtækið L-7 ehf. sem sjá um niðurrifið.  Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar samþykkti nýlega niðurrif hússins, en eigandi hússins er Selvík ehf. Egilssíld flutti fyrir nokkrum árum í annað húsnæði á Siglufirði.

Fyrirtækið Egilssíld er fiskvinnslufyrirtæki sem framleiðir aðallega reyktar afurðir úr laxi og síld.  Egils sjávarafurðir rekur rætur sínar aftur til ársins 1921 er Egill Stefánsson hóf að reykja síld á Siglufirði. Þá var síldarævintýrið í algleymingi, einhver mesti uppgangstími í atvinnusögu þjóðarinnar. Egill rak fyrirtækið til dauðadags 1978, en þá tók sonur hans Jóhannes við. Jóhannes féll frá árið 2011 og nýir eigendur sem reka fyrirtækið í dag tóku þá við rekstrinum.