Frétt frá Húna.is:

Húnavöku lauk í gær en það helsta sem var á dagskrá þennan síðasta dag hátíðarinnar var þjóðbúningasýning í Heimilisiðnaðarsafninu og opið hús hjá Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi. Á laugardagskvöld fjölmenntu hátíðargestir á kvöldvöku í Fagrahvammi þar sem í boði voru fjölbreytt skemmtiatriði, bakkasöngur og varðeldur.

 

Á kvöldvökunni stigu meðal annarra á svið þau Jónsi og Alma Rut og sigurvegararnir úr Míkróhúninum en það voru þau Baldur Einarsson, sem sigraði í yngri hópnum og Rakel Marín Jónsdóttir sem sigraði í eldri hópnum. Þá stigu á svið Jói Óda, Ásdís Guðmunds úr Multi Musica og Einar töframaður, sem einnig var kynnir.

 

Á laugardag fór einnig fram hið árlega Blönduhlaup en hlaupið var bæði á götum Blönduósbæjar og á stígum meðfram Blöndu. Hlaupnir voru 2,5 kílómetrar, 5 kílómetrar og 10 kílómetrar. Fljótastur í mark í 10 kílómetra hlaupinu var Hermann Þór Baldursson. Sigurvegari í 5 kílómetra hlaupi hjá stúlkum 15 ára og yngri var Kristrún Hilmarsdóttir en Sæmundur Ólafsson sigraði 5 kílómetra hlaupið hjá drengjum.

 

Fjölda mynda má finna af Húnavöku á fésbókarsíðu hátíðarinnar; www.facebook.com/hunavaka.

Texti: Huni.is – rzg@huni.is