Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra og Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS, undirrituðu í dag samkomulag um að auka framboð á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu á tímabilinu 2024-2029 og fjármagna uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum og félagslegu húsnæði.

Stefnt er að því að byggðar verði rúmlega 50 íbúðir á fimm árum og þar af verði 19 þeirra byggðar án hagnaðarsjónarmiða fyrir fólk undir tilteknum tekju- og eignamörkum, íbúðir sem falla undir skilyrði hlutdeildarlána. Árleg uppbygging verður nokkuð jöfn en stefnt er að því að byggja 8-12 íbúðir á ári.

Samkomulagið er gert á grunni rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um aðgerðir í húsnæðismálum, sem gerður var sumarið 2022. Í rammasamningnum voru sett markmið um að byggja 35 þúsund íbúðir á landsvísu á tíu árum til að mæta þörfum ólíkra hópa samfélagsins um land allt, þ.á m. með sérstökum aðgerðum fólk undir tilteknum tekju- og eignamörkum. Í rammasamningnum var kveðið á um að gera samninga við einstök sveitarfélög með aðkomu HMS um að auka framboð íbúðarhúsnæðis. Húnaþing vestra er þriðja sveitarfélagið sem gerir slíkan samning en í fyrra var samið við Reykjavíkurborg og Mýrdalshrepp.

Rúmlega 50 íbúðir á samningstímabilinu

Markmið samkomulagsins við Húnaþing vestra er að byggðar verði rúmlega 50 íbúðir í sveitarfélaginu á samningstímabilinu í samræmi við metna þörf samkvæmt húsnæðisáætlun sveitarfélagsins. Samkomulagið gerir ráð fyrir auknu framboði hagkvæmra íbúða með viðráðanlegan húsnæðiskostnað og að 19 slíkar íbúðir verða byggðar á næstu fimm árum. Það jafngildir um 3% allra íbúða í Húnaþingi vestra sem eru nú 597 talsins, skv. mannvirkjaskrá HMS.

Áformin eru í samræmi við nýstaðfesta húsnæðisáætlun Húnaþings vestra fyrir árið 2024 og mun sveitarfélagið leitast við að tryggja nægjanlegt framboð byggingarhæfra lóða í samræmi við samkomulagið þannig að byggingarhæfar lóðir á næstu árum rúmi 25-35 íbúðir ár hvert.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra: „Þörfin fyrir hraðari uppbyggingu húsnæðis er mikil um allt land. Það gleður mig að Húnaþing vestra ætli að stórauka uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á næstu árum í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið sýnir með þessu gott fordæmi en samningur sama efnis var undirritaður við Reykjavíkurborg og Mýrdalshrepp í fyrra. Miklu skiptir að auka framboð í almenna íbúðakerfinu þar sem ríki og sveitarfélög vinna sameiginlega að því að niðurgreiða íbúðir með stofnframlögum og hlutdeildarlánum fyrir fólk undir tilteknum tekju- og eignamörkum.“

Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra: „Með þessu samkomulagi er stigið stórt skref í að mæta þörf fyrir íbúðarhúsnæði í Húnaþingi vestra. Uppbyggingin gefur okkur um leið tækifæri til að sækja fram með ákveðnari hætti en áður, fjölga atvinnutækifærum og laða til okkar fleira fólk. Samkomulagið sýnir svo ekki verður um villst að Húnaþing vestra er samfélag í sókn.“

Fylgiskjöl: