Hjúkrunar- og dvalarheimilið Hornbrekka í Ólafsfirði  langar að koma á fót Bakvarðarsveit, fari svo að mikið brottfall verði í hópi starfsmanna.  Leitað er að einstaklingum sem gætu aðstoðað við umönnunar-, eldhús- og ræstingastörf. Einstaklingar sem hafa unnið á Hornbrekku, eða hafa heilbrigðis- eða umönnunarreynslu og þeim sem eru hraustir og geta unnið hlutastörf tímabundið.

Þeir sem hafa áhuga vinsamlega sendið nafn og símanúmer á birna@hornbrekka.is. Ef þörf verður á að kalla eftir aðstoð mega þeir sem skrá sig eiga von á símtali. Á Hornbrekku starfa nú um 40 manns.

Svör frá hjúkrunarforstjóra Hornbrekku:

Við höfðum samband við Birnu hjúkrunarforstjóra Hornbrekku, og spurðum nánar út í þessa Bakvarðarsveit. Birna sagði að nú þegar væru 11 búnir að skrá sig á bakvarðarlistann og margir þeirra væru einstaklingar sem hafa unnið áður á Hornbrekku.

Við spurðum einnig hvort þetta væru launuð störf eða sjálfboðavinna, og staðfesti Birna að þetta væru launuð störf, kom til þess að kallað verði til fólks af bakvarðarlistanum.

Er einhver starfsmaður Hornbrekku í sóttkví?

Það er enginn starfsmaður í sóttkví, það var tekið sýni hjá einum starfsmanni og meðan var verið að bíða eftir því voru 11 starfsmenn heima í sóttkví, en sem betur fer var sýnið neikvætt. – Sagði Birna Björnsdóttir, hjúkrunarforstjóri Hornbrekku.