Hollvinasamtök Dalbæjar afhentu heimilinu fyrstu gjöf samtakanna í byrjun apríl og veitti Elísa Ingvarsdóttir hjúkrunarframkvæmdarstjóri Dalbæjar gjöfinni móttöku frá Rúnu Kristínu Sigurðardóttur, formanni Hollvinasamtaka Dalbæjar.
Um er að ræða Carevo sturtubekk, en hann gengur undir nafninu bláa lónið. Tekur bekkurinn við af eldri sturtubekk sem var orðinn úreldur og kominn vel til ára sinna. Heildarkostnaður gjafarinnar er um 750 þúsund krónur.
Fjöldi félaga hollvinasamtakanna er um 160 og vilja forráðamenn fjölga enn frekar í hópnum.
Tilgangur félagsins er að styðja við Dvalarheimilið Dalbæ með framlögum til tækjakaupa og ýmiss konar búnaðar. Framlögum í félagið er safnað með félagsgjöldum félagsmanna og er árgjaldið 5.000 kr.