Óvenjulega hlýtt var á landinu öllu í apríl. Þetta var hlýjasti aprílmánuður frá upphafi mælinga á Akureyri, í Grímsey, Reykjavík, Stykkishólmi, Bolungarvík og á Hveravöllum. Suðaustlægar áttir voru ríkjandi. Þurrt og bjart var norðanlands en blautara syðra. Ekki hefur rignt eins lítið á Akureyri í aprílmánuði síðan árið 2000.  Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Á Akureyri var meðalhitinn 6,9 stig, 5,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 4,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Aldrei varð alhvítt á Akureyri en þar eru að jafnaði 9 alhvítir dagar í apríl.  Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 168,5, sem er 38,8 stundum fleiri en í meðalári.