Hlutu heiðursviðurkenningar á hátíðarfundi Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar

Tveir félagar Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar voru heiðraðir á hátíðarfundi þann 18. október síðastliðinn, þetta eru þeir Svavar Berg Magnússon og Óskar Þór Sigurbjörnsson.

Svavar Berg gekk í Rótarýklúbb Ólafsfjarðar í desember 1963. Hann hefur tvisvar verið forseti klúbbsins, í fyrra skiptið starfsárið 1972-1973.  Seinna forsetatímabil Svavars var árið 1995-1996.

Óskar Þór er einn af fáum sem hefur verið forseti þrjú starfsár, það fyrsta 1977-1978, annað 1999-2000 og hið þriðja 2007-2008.
Óskar Þór var um árabil formaður skiptinemanefndar klúbbsins og bar hitann og þungan af því starfi um langt árabil. Hann hefur séð um innheimtu fyrir leiðiskrossana í fjölmörg undanfarin ár og gerir enn.

Það voru stór tímamót hjá Svavari vikunni áður, þar sem hann varð áttræður og tilnefningin því á skemmtilegum tíma. Svavar er og hefur lengi verið áhugaljósmyndari og á stórt og vel skipulagt safn ljósmynda á stafrænu formi. Í safni hans eru miklar heimildir um starf rótarýklúbbsins svo áratugum skiptir. Vefsíður klúbbsins og samkomur á hans vegum hafa fengið að njóta góðs af því í gegnum tíðina.

Klúbburinn hefur e.t.v. ekki verið nógu duglegur að tilnefna heiðursfélaga, en fyrir voru þó þrír gamalreyndir rótarýmenn í því liði, Þeir: Ármann Þórðarson, Gunnar Þór Magnússon og Magnús Stefánsson. Magnús er einn eftirlifandi þeirra kappa sem stofnuðu klúbbinn í apríl 1955.