Á morgun miðvikudaginn 17. apríl  munu nemendur 7. og 8. bekkjar Varmahlíðarskóla hlaupa áheitahlaup til styrktar Krabbameinsfélagi Skagafjarðar, en undanfarna daga hafa þeir verið að safna áheitum til málefnisins. Stefnt er að hlaupa 65 km hring: Frá Varmahlíð út á Sauðárkrók, yfir Hegranesið, fram úthlíð Blönduhlíðar og aftur í Varmahlíð meðfram þjóðvegi 1.

Hefja fyrstu menn hlaupið klukkan 10 og áætlað er að þeir síðustu mæti um kvöldmatarleytið aftur í Varmahlíð. Í dag er síðasti dagur nemenda til að safna áheitum og vonast er til að tekið verði vel á móti þeim.

Á morgun, miðvikudaginn 17. apríl klukkan 12:40 verða svo sömu bekkir með fræðslu og skemmtun um tóbak og notkun þess, en bæði fræðslan og áheitahlaupið eru framlag verkefnisins Tóbakslaus bekkur sem Landlæknisembættið heldur utan um.

Heimild: Feykir.is