Kristján Jónasson löggiltur endurskoðandi hjá KPMG fór yfir og kynnti ársreikning Sveitarfélagsins Skagafjarðar á sérstökum fundi, sem haldinn  var þann 26. apríl s.l., með sveitarstjórn.
Til máls tók Sigurjón Þórðarson sem lagði fram svohljóðandi bókun:
Niðurstaða reikninga sýna að áætlangerð meirihluta Vg og Framsóknarflokks hefur því miður brugðist en niðurstaðan er talsvert lakari en fjárhagsáætlanir gerðu ráð fyrir. Það sem af er þessu ári hefur verðbólgan verið vaxandi og þar af leiðandi hækkað verðbóta og vaxtakostnað sveitarfélagsins eins og sjá má í rekstraryfirliti . Reikningarnir bera það með sér að það eina rétta í stöðunni sé staldra við og endurmeta núverandi rekstraráætlanir en forsendur þeirra eru augljóslega brostnar. Það er í raun galið að ætla að fara í stórframkvæmdir fyrr en að jafnvægi hefur náðst í rekstrinum en óbreytt stefna kemur sveitarfélaginu í mikla skuldakreppu.
Næst tók til máls Jón Magnússon og óskar bókað:
Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar sýnir glöggt að varnarorð Sjálfstæðismanna allt frá upphafi yfirstandandi kjörtímabils hafa átt við rök að styðjast. Rekstrarniðurstaðan árið 2011 er ein sú dapurlegasta sem fram hefur komið um árabil. Meirihluta Framsóknarmanna og VG hefur algerlega mistekist að ná tökum á rekstri sveitarfélagsins. Íbúar Skagafjarðar munu þurfa að greiða fyrir óráðsíu þessa meirihluta á komandi árum með skertri þjónustu og vaxandi skuldum. Fyrirætlanir um aðhald í rekstri eru aðeins orðin tóm og heldur léttvæg í þurra sjóði sveitarfélagsins. Sjálfstæðismenn lýsa enn á ný miklum efasemdum um getu núverandi meirihluta til að ná tökum á rekstri Sveitarfélagsins Skagafjarðar.