Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis, að takmarka samkomur enn frekar en áður vegna hraðari útbreiðslu Covid-19 í samfélaginu. Viðburðir þar sem fólk kemur saman verða takmarkaðir við 20 manns í stað 100 áður. Við öll mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum. Ákvörðunin tekur gildi á miðnætti annað kvöld. Takmörkun á skólahaldi verður óbreytt.

Sóttvarnalæknir hefur haft þessar aðgerðir til skoðunar síðustu daga, með hliðsjón af þróun mála hér á landi, tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og í ljósi aðgerða annarra ríkja. Ákvörðun heilbrigðisráðherra um frekari takmarkanir eins og sóttvarnalæknir leggur til á sér stoð í 12 gr. sóttvarnalaga.

Helstu áhrif frekari takmörkunar:

  • Allar fjöldasamkomur þar sem fleiri en 20 manns koma saman eru óheimilar meðan takmörkunin er í gildi. Á það jafnt við hvort sem fólk kemur saman í opinberum rýmum eða einkarýmum.
  • Hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi skal tryggt að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.
  • Á öllum vinnustöðum eða þar sem önnur starfsemi fer fram skal vera tryggt að ekki séu fleiri en 20 einstaklingar í sama rými. Þessar takmarkanir eiga einnig við um almenningssamgöngur og aðra sambærilega starfsemi.
  • Sérstakar reglur gilda um matvöruverslanir og lyfjabúðir. Þar verður heimilt að hafa allt að 100 manns inni í einu, að því gefnu að hægt sé að halda a.m.k. 2 metra fjarlægð milli einstaklinga. Ef matvöruverslanir eru yfir 1.000 m2 er heimilt að hleypa til viðbótar einum einstaklingi fyrir hverja 10 m2 þar umfram en þó aldrei fleiri en 200 viðskiptavinum.

Lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu:

  • Sundlaugum, líkamsræktarstöðvum, skemmtistöðum, spilasölum, spilakössum og söfnum skal lokað meðan á þessum takmörkunum stendur.
  • Starfsemi og þjónusta sem krefst mikillar nálægðar milli fólks eða skapar hættu á of mikilli nálægð er óheimil. Þar undir fellur allt íþróttastarf og einnig allar hárgreiðslustofur, snyrtistofur, nuddstofur og önnur sambærileg starfsemi. Þetta á einnig við um íþróttastarf þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér, s.s. skíðalyftur.

Þrif og sótthreinsun almenningsrýma

  • Í öllum verslunum, opinberum byggingum og á öðrum stöðum innandyra þar sem umgangur fólks er nokkur skal þrifið eins oft og unnt er, sérstaklega algenga snertifleti.
  • Við alla innganga skal tryggja aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og eins víða um rými og talin er þörf á, s.s. við afgreiðslukassa í verslunum.

Undanskilið ákvörðun um hertar takmarkanir:

  • Sérstök auglýsing sem áður hefur verið birt gildir um takmörkun skólastarfs. Þó skal fylgja fjarlægðarmörkum um tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga eftir því sem það á við og mögulegt er, einkum gagnvart eldri börnum.
  • Takmörkunin gildir ekki um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem ekki getur beðið.
  • Takmörkunin tekur hvorki til alþjóðaflugvalla og -hafna, né til loftfara og skipa.

Undanþágur

  • Heilbrigðisráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkun á samkomum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins eða til verndar lífs eða heilsu manna eða dýra.
  • Sóttvarnalæknir getur veitt undanþágu frá sóttkví vegna samfélagslegra ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast vegna lífsbjargandi starfsemi, s.s. raforku, fjarskipta, samgangna, heilbrigðisstarfsemi, löggæslu, sjúkraflutninga og slökkviliða.
  • Allar undanþágur sem veittar hafa verið vegna sóttkvíar falla úr gildi og þurfa þeir sem slíkt hafa fengið að sækja um að nýju sé þörf á því.

Heilbrigðisráðherra mun birta í Stjórnartíðindum nýja auglýsingu um takmörkun á samkomum í stað þeirrar eldri sem fellur þar með úr gildi. Gildistími verður óbreyttur, þ.e. til og með 12. apríl næstkomandi. Takmörkunin tekur til landsins alls. Stjórnvöld endurmeta takmörkunina eftir því sem efni standa til, hvort heldur til að aflétta henni fyrr, eða framlengja gildistímann.